Ferill 580. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 909  —  580. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, og lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 24. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Virðisaukaskattsskýrslur félaga sem fengið hafa heimild til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli skv. 11. gr. A laga um ársreikninga skulu byggjast á upprunalegum fjárhæðum í íslenskum krónum.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.
2. gr.

    Við 12. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Launaframtal félaga sem fengið hafa heimild til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli skv. 11. gr. A laga um ársreikninga skal byggjast á upprunalegum fjárhæðum í íslenskum krónum eða umreiknuðum fjárhæðum á daggengi.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarpið er lagt fram í tengslum við 347. mál á yfirstandandi löggjafarþingi þar sem lagt er til að félögum verði veitt heimild til að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli. Vegna þeirra breytinga sem efnahags- og viðskiptanefnd leggur til að gerðar verði á því máli er nauðsynlegt að breyta einnig á lögum um virðisaukaskatt og lögum um tryggingagjald til að taka af allan vafa um að virðisaukaskattsskýrslur og launaframtöl félaga sem nýta sér heimild til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli skuli engu síður byggjast á upprunalegum fjárhæðum þeirra í íslenskum krónum. Launaframtal félaga má þó einnig byggjast á umreiknuðum fjárhæðum á daggengi.